16. desember,
2025
Bárður M. Níelsson hlýtur Samfélagsorðu Klúbbs matreiðslumeistara
Bananar og Klúbbur matreiðslumeistara eiga að baki afar farsælt og söguríkt samstarf sem um áratugaskeið hefur verið ein af stoðum Kokkalandsliðsins í undirbúningi og keppnisstarfi á alþjóðavettvangi.

Þann 3. desember síðastliðinn var Bárði M. Níelssyni, fyrrverandi innkaupastjóra hjá Bönunum, veitt Samfélagsorða Klúbbs matreiðslumeistara fyrir framúrskarandi og langvarandi stuðning við starfsemi klúbbsins og Kokkalandsliðsins. Samfélagsorðan er hæsta viðurkenning sem Klúbbur matreiðslumeistara veitir einstaklingum sem ekki eru félagar í klúbbnum og er henni ætlað að heiðra þá sem með óeigingjörnu framlagi, fagmennsku og samfellu hafa lagt verulegt af mörkum til eflingar íslenskrar matargerðar, fagkeppna og landsliðsstarfs.
Bárður M. Níelsson hefur áratugalanga og djúpa tengingu við íslenska garðyrkju og sölu á ferskum afurðum. Faðir hans, Níels Marteinsson, var sölustjóri grænmetis hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Tengsl Bárðar við greinina mótuðust snemma, en hann minnist þess að hafa farið með föður sínum í vinnuna sem barn, fylgst með daglegu starfi og tekið þátt í iðandi mannlífi félagsins. Bárður hóf störf hjá Sölufélagi garðyrkjumanna árið 1967 og starfaði þar til ársins 1992. Á þeim tíma voru allir tómatar og gúrkur flokkaðir og pakkaðir í húsnæði félagsins í Skógarhlíð, þar sem töluvert af sumarstarfsfólki starfaði yfir uppskerutímann. Þar kynntist hann fjölmörgu góðu og eftirminnilegu samstarfsfólki og öðlaðist dýrmæta reynslu sem síðar átti eftir að nýtast honum í störfum sínum innan greinarinnar.
Í kjölfarið hóf Bárður störf hjá Ágæti og fylgdi með í kaupunum þegar Bananar keyptu fyrirtækið. Hann lauk starfsferli sínum fyrir skömmu, þegar hann fór á eftirlaun, eftir langan og farsælan feril í þjónustu íslenskrar matvæladreifingar og garðyrkju.
Með veitingu Samfélagsorðunnar þakkar Klúbbur matreiðslumeistara Bárði M. Níelssyni sérstaklega fyrir ómetanlegt og langvarandi framlag hans til íslenskrar matarmenningar, djúpan skilning á starfsskilyrðum fagstéttarinnar og það mikilvæga hlutverk sem hann hefur gegnt í því að skapa Kokkalandsliðinu traust og faglegt umhverfi til árangurs á alþjóðavettvangi.