Grænmeti og ávextir úr verslunum fá nýtt hringrásarlíf

10. desember, 2021

Hagar stofnuðu í upphafi árs nýsköpunarsjóðinn Uppsprettuna með það að markmiði að styðja við frumkvöðla við þróun og nýtingu á matvælum. Sjóðurinn lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að verkefnin sem fengu styrk úthlutun hefðu sjálfbærni að leiðarljósi við þróun og framleiðslu. Alls fengu níu verkefni styrk að verðmæti um 11 milljónir króna.  

Sápur úr grænmeti og ávöxtum

Baða er eitt af verkefnunum sem að fékk styrk úr Uppsprettunni. Hugmyndin að Baða vörunum kviknaði út frá þeirri hugmynd að nýta mætti ávexti og grænmeti sem falla til í verslunum til sápugerðar og virkja þannig hringrás verðmæta sem að annars flokkuðust sem lífrænn úrgangur. Erla Gísladóttir og Ólafur Freyr Frímannsson eru frumkvöðlarnir á bak við Baða og hófu þau þróun á vörum Baða á vormánuðum í samstarfi við Haga. Í byrjun nóvember voru fjórar tegundir af sápum með banönum, bláberjum, gúrku og sítrónu tilbúnar til sölu í verslunum Bónus um allt land.

„Ferlið hefur verið mjög skemmtilegt. Allt frá því að við fengum hugmyndina fram að nú þegar vörurnar eru komnar í sölu í Bónus um allt land. Allar sápurnar eru handgerðar og framleiddar úr íslensku hráefni m.a. repjuolíu frá Sandhóli. Einnig fáum við grænmeti og ávexti sem að ekki eru lengur vænlegir til sölu í verslunum vegna útlits eða líftíma. Hér er því um fyrirtaks hringrás að ræða sem að bæði er góð fyrir manneskjuna og umhverfið. Það gerist ekki betra“ segir Erla Gísladóttir stofnandi Baða.

„Við hjá Högum leggjum mikla áherslu á að nýta auðlindir sem allra best og lágmarka sóun. Við erum því sífellt að leita leiða til þess að auka hringrás í okkar starfsemi. Hugmynd Baða að aukinni nýtingu á grænmeti og ávöxtum í verslunum passaði vel við okkar sjálfbærni áherslur. Við höfum unnið þétt með stofnendum Baða að vöruþróuninni og áætlunum um hvernig best sé að haga sölu á vörunni. Nýsköpun er okkur mikilvæg og það hefur verið mjög skemmtilegt að vinna svo náið með frumkvöðlunum hjá Baða og deila okkar reynslu í verslun með þeim“  segir Sesselía Birgisdóttir forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum.